Lýðræði á 21. öldinni

Lýðræði er í mínum huga meira heldur en kosningar á fjögurra ára fresti. Lýðræði fyrir mér er að gera fólki kleift að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum, geta fengið upplýsingar um stjórnvöld sín og hvernig sameiginlegum fjármunum okkar er varið.

Lýðræði á 21. öldinni er hugsjón, markmið og barátta. Það er ekkert eitt rétt í þessum efnum og við þurfum að gera tilraunir með lýðræðið – reyna að skilja hvernig við getum tekið ákvarðanir saman og hvernig þetta allt skalast. En lýðræði er fyrir mér mun meira en ákvarðanataka – lýðræði er líka gegnsæi og traust.

Traust á ferlið

Lýðræði byggist, að mínu mati, á því að við treystum þeim ferlum sem við erum með. Það sem gerir íslenskt lýðræði svona brothætt er m.a. hvernig ferlin eru – þau eru ógagnsæ, það er erfitt að sjá hver talaði við hvern, mikið af ákvörðunum eru teknar í lokuðum herbergjum á þess að hafa samráð við hlutaðaeigandi.

Lýærðislegt ferli er því það ferli þar sem við getum unað niðurstöðunni þrátt fyrir að vera ósammála henni.

Það er  í lagi að vera ósammála niðurstöðunni, en það hvernig komist var að niðurstöðunni þarf að vera hafið yfir allan vafa um að átt hafi verið við ferlið. Þess vegna þarf gagnsæi í lýðræðislegu ferlunum okkar.

Gegnsæi í stjórnsýslu

Lykillinn að heilbrigðu lýðræði er aðgengi að upplýsingum. Það þarf að gera stjórnsýsluna opnari og aðgengilegri og það er eitthvað sem Ísland hefur alla burði til þess að gera.

Eitt af því sem við Píratar komum í gegn á síðasta ári var að  skylda fjármálaráðuneytið til þess að birta fjárlögin á excel/csv samhliða útgáfu þeirra á hefðbundnu formi. Tæknin gerir okkur nefnilega kleift að skoða fjármál ríkis og sveitarfélaga mun nákvæmara en áður fyrr – það þarf bara að gefa út gögnin á réttu formi til þess að gera það.

Það hefur núþegar verið gert mikið átak í fjölmörgum löndum, meðal annars í Bretlandi, til þess að gefa út þessi gögn og það hefur reynst vel. Við þurfum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum, heldur bara taka þátt í þessari þróun. 

Heilbrigt lýðræði

Forsenda þess að hafa heilbrigt lýðræði er þess vegna virðing bæði innan stjórnsýslunnar og ríkisins á lýðræðishugsjónina – að hún þurfi að vera víðtækari heldur en bara að sækja umboð á fjögurra ára fresti. Þetta er nefnilega líka spurning um hvernig við vinnum þegar umboðið hefur verið fengið.

Hvernig getum við, lýðræðisþegnar samfélagsins, haft áhrif, sagt okkar skoðun til valdhafa og finnast eins og það sé hlustað á okkur? Í mínum huga þá erum við með heilbrigt lýðræði þegar ferla þegar við getum unað niðurstöðunni þótt við séum efnislega ósammála henni – út af því að við treystum því ferli sem farið var eftir, enda byggist það á gagnsæi og virðingu við lýðræðið.